Sunday, October 21, 2007

Alltaf þegar mér er boðið lambakjöt hugsa ég um Gaur. Ég man ekki hvenær ég kynntist Gaur. En ég þekkti hann alla hans ævi. Líklega fór ég að kynnast honum fyrir alvöru eftir sláturtíð að hausti á hans fyrsta ári. Það eru yfirleitt 3 hrútar á hverju ári sem fá það hlutverk að viðhalda bústofninum. Gaur var einn af þeim heppnu.
Ég var með nokkuð skýrt afmörkuð verkefni í fjárhúsunum hans afa þegar ég var krakki. Ég fór í kaffi til ömmu og afa á hverjum degi og eftir það röltum við í fjárhúsin. Hann gerði heyið klárt og sagði mér að sjá um að klappa hrútunum á meðan og gefa þeim vatn.
Gaur var frekar styggur í fyrstu og leyfði mér ekki að klappa sér. Hann stangaði mig í hendurnar þegar ég nálgaðist hann. Ég vandist því að hann myndi reyna að stanga mig þegar ég gerði tilraun til að klappa honum og fór að stilla lófunum upp gegnt hornunum á honum og gekk hægt að honum eins ég væri að undirbúa hrútaslag. Eins og við værum að fara að stangast. Hann setti þá upp undir sig hornin og starði í lófana eins og um raunverulegann andstæðing væri að ræða. Eins og í aðsigi væri uppgjör milli tveggja hrúta um hvor þeirra væru kóngurinn, alfa karlinn, og hvor væri ómega karlinn, aukaleikarinn.
Þetta komst upp í vana hjá okkur. Á hverjum degi gaf ég honum vatn og stangaðist við hann. Hann tók þátt í leiknum af heilum hug og milli okkar mynduðust tengls sem einungis geta myndast milli manns og dýrs. Eitthvert form af samhug, sameiginlegum skilning á mismunandi aðstæðum og ólíku hlutverki hvors annars í lífinu, en áttum þetta sameiginlegt. Hjá krakka uppí sveit sem fær ekki tækifæri til að hitta jafnaldra sína reglulega verður svona samband manns og dýrs mun líkara vinasambandi heldur en sambandi drottnara og lítilmagna. Hann eignaðist tugi eða hundruði afkvæma og ég hjálpaði til við að taka þau af lífi og borðaði nokkur þeirra.
Blog tracker